Fundargerð rituðu Helga Eyjólfsdóttir
og Urður Gunnarsdóttir
Mættir voru rétt um 30 manns.
Fundur hófst kl 17.00. Lárus Heiðarsson oddviti stýrði fundi og bauð Ingvar Rafn Stefánsson frá Deloitte velkominn.
Ingvar Rafn kynnti fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2024 ásamt þriggja ára áætlun 2025-2027. Seinni umræða um áætlunina verður haldin í desember.
Opnað var fyrir spurningar íbúa.
Spurt var út í Ársali fasteignafélag og kostnað tengdan eignarhlut í félaginu. Sveitarstjóri sagði að í fyrsta sinn hefðu sveitarfélögin sem að félaginu stæðu þurft að leggja með félaginu.
Einnig spurt út í stöðugildi á Hengifossi og hvernig það væri hugsað. Sveitarstjóri upplýsti að það fælist einkum í eftirliti með húsum og bílastæðum og stígagerð. Fyrst um sinn væri gert ráð fyrir heilsárs-stöðugildi. Spurt var hvort staðan yrði auglýst, og sagðist sveitarstjóri gera ráð fyrir því. Enn væri óljóst hvort auka stöðugildi þyrfti yfir hásumarið og eins væri óljóst hvert fyrirkomulagið verði eftir 2024. Spurt var hver yrði yfirmaður starfsmanns, svarið var að líklega yrði það sveitarstjóri, nú eða oddviti.
Nokkuð var spurt um aðstöðuhúsið við Hengifoss. Sveitarstjóri sagði gert ráð fyrir að það verði klárt fyrir rekstur á vormánuðum 2024 og að bílastæðin yrðu malbikuð næsta sumar en óljóst nákvæmlega hvenær. Ekki væri búið að ákveða fyrirkomulag með þrifum eftir að aðstöðuhúsið er tilbúið, hvort þau verði í verktöku eins og nú er eða starfsmenn hreppsins sjái um þau. Ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort hætt verði við samstarfssamning við Vatnajökulsþjóðgarð varðandi landvörslu, en gert er ráð fyrir honum í fjárhagsáætlun. Varðandi veitingarekstur í Hengifosshúsinu sagði sveitarstjóri að ef slíkur rekstur yrði auglýstur væri afar ólíklegt að hann færi af stað á næsta ári, þar sem aðstaða til slíks rekstrar væri ekki fyrir hendi í stöðunni.
Einnig var spurt út í hvort einhverjar breytingar yrðu á menntastyrkjum. Sveitarstjóri upplýsti að úthlutunarreglur hefðu breyst á miðju ári og allur styrkur til ferðakostnaður hefði verið tekinn út.
Þá var spurt um liðinn sameiginlegan kostnað sem sveitarstjóri sagði einkum felast í endurskoðun, lögfræðivinnu og laun sveitarstjóra og sveitarstjórnar.
Varðandi spurning um umhverfisstyrkina, sagði oddviti að uppsöfnuð upphæð í umhverfisstyrkjum hafi verið um 100 milljónir en unnið hafi verið í því að lækka þá „snjóhengju“
HG sagði að ef vel gengi yrðu heildartekjur sveitarfélagsins um eða yfir 300 milljónir á ári, næstu árin.
Fjórir möguleikar eru í skoðun fyrir notkun á aðstöðuhúsi við Hengifoss, þ.e.: upplýsingamiðstöð fyrir sveitarfélagið, sýning á Hengifoss svæðinu (reynslan á Þingvöllum af slíkum rekstri virðist ekki vera góð), veitingarekstur, verslun fyrir vörur framleiddar í Fljótsdal.
Spurt var út í tilmæli frá yfirvöldum til sveitarfélaga að fara varlega í hækkanir út af verðbólgu og þá vísað í fyrirhugaðar hækkanir á sorphirðugjöldum og hvort ekki hefði verið íhugað að halda aftur af þeim. Sveitarstjóri sagði að nú væri reglan að þeir greiði sem hendi og því séu sorphirðugjöld að hækka, hafi ekki hækkað frá 2003. Nú sé raunkostnaðurinn á hvert heimili um 140.000. Sambærilegar hækkanir megi sjá í nágrannasveitarfélögum. Samningurinn við Íslenska gámafélagið var framlengdur um 6 mánuði og óvíst hvað verður þegar hann rennur út en hann feli í sér um 30% hækkun. Sveitarfélög á Austurlandi hafa hafið samtal um eigið sorpsamlag en ekkert liggur fyrir í þeim efnum.
17:55 Gert var fundarhlé og snæddar fáeinar kótelettur.
18:50 Skarphéðinn Smári Þórhallsson hjá LOGG kynnti skipulagsvinnu á Valþjófsstaðamelum ( í eigu sveitarfélagsins) og í Hamborg.
Atvinnu-, iðnaðar og þjónustulóðir á Valþjófsstaðarmelu eru hugsaðar fyrir léttan iðnað og þjónustu, yrði ekki lengur efnistökusvæði. Ekki hafa fundist fornleifar á staðnum. Vinnuheitið á svæðinu er Garðar. Tillaga var lögð fyrir byggingarnefnd fyrir 2 vikum. Rætt að skerma af með trjám upp á sjónræn atriði og til að draga úr vindi. Rætt hvort búnaðarfélagið fengi lóð eða aðstöðu fyrir sín tæki.
Fyrirspurn um hvort einhverjar hömlur væru á byggingarmagni á lóð? SSÞ sagði að það yrði, svo og ákvæði um hæð og mögulega útlit, s.s. ákveðna liti. Spurt hvort leyfa ætti lausar byggingar, SSÞ sagði að slíkt yrði að fara í byggingarskilmála. Þá markast stærð svæðis fyrir úrgang af því hvaða leið verði farin í úrgangsmálum.
Sveitarstjóri upplýsti skiptar skoðanir væru á því hvort svæði fyrir úrgang væru sýnilegt; sumir væru andvígir því en aðrir hefðu bent á að betur yrði gengið um svæði sem væri sýnilegt.
Fyrirspurn kom um hvort þetta yrðu leigu- eða eignarlóðir og sveitarstjóri segir þetta verða leigulóðir (nema Hengifosshúsið setji hreppinn á hausinn).
SSÞ kynnti í framhaldi frumdrög að skipulagi á fyrirhuguðum þéttbýliskjarna í landi Hamborgar. Minnti á að svæðið hefði fengið góða einkunn í úttekt Páls Líndals umhverfissálfræðings. Byggð færi upp í 105 metra hæð, svæðið allt um 20 hektarar, Lóðir væru áætlaðar 1300-2500 fm. Unnið er að fornleifaskráningu, vitað af rúst syðst á svæðinu og einnig nyrst. Líklega verður ekki lagt til að sett verði raðhús (hömlur á slökkvivatni).
Sýndi tillögu að skipulagi með allt að 56 lóðum. Töluverður bratti í landinu, Yrði byggt í 4 fösum, byrjað næst þjóðvegi og svo upp. Ekki væri útilokað að breytingar yrðu gerðar á skipulagi eftir að byggingar hæfust og því gott að vinna í áföngum. Rústir við ána sem eru friðlýstar, svo líklega um 130 metra radíus sem ekki má byggja í kringum. Dýrt að tengja efri og neðra svæði saman með veg svo óvíst að það verði gert.
Ávarðanir sem þarf að taka:
Hvar á að byrja
Dýrahald; á að leyfa hesta, hunda, ketti, hænur osfv. Við Vatnsenda í Reykjavík eru t.d. hestar leyfðir.
Á að gera ráð fyrir lóð með leiktækjum, jafnvel leikskóla, hvað með íbúðir fyrir aldraða?
Hvað með atvinnustarfsemi, s.s. kennslu, hárgreiðslu, tækniþjónustu osfrv
Innviðir: Vatn, rafmagn, fráveita, slökkvivatn, ljósleiðari, götur og göngustígar.
Fyrirspurn um hve langur sólargangur er á svæðinu, því svarað til að það komi oft sól þarna.
Spurt út í stærð lóðanna. Venjuleg lóð á Egilsstöðum er 600-1200 m2 en gert er ráð fyrir stærri lóðum í Hamborg eða 1200-2500 m2
Spurt út í leigugjald á lóðum. Sveitarfélagið greiðir ekkert leigugjald en hver lóðahafi borgar 2,5% af fasteignamati lóðar árlega.
SSÞ nefndi að vel sé hægt að breyta stærðum lóða, hér sé aðeins um tillögu að ræða. T.d. að hafa stærri lóðir og minni lóðir í bland.
Spurt hvort eitthvað hafi verið horft til annarra svipaðra hverfa á landinu. T.d. hefur verið horft til Hrafnagils í Eyjafirði og hverfi nálægt Selfossi.
Spurt hvort sveitarfélagið muni byggja á lóðunum eða hvort almennir leigutakar? Sveitarstóri svaraði því til að sveitarfélagið hafi hug á því að byggja 1-2 íbúðir til að ríða á vaðið. Einnig er til skoðunar að fá fasteignafélag í uppbygginguna, t.d. Ársali, Brák og Bríet. Hægt að stýra hvaða hópar séu hvar með skipulagi, ungt/eldra t.d.
Spurt hvenær sé áætlað að hægt sé að byrja að byggja. Skipulagið ætti að vera tilbúið á næsta ári en óvíst hvort og hve lengi andmæli munu tefja staðfestingu þess.
Líklega er ekki mjög dýrt að byggja á þessu landi þar sem grunnt er á möl.
Bent á að fyrirhugað byggingarland er undir því landi sem hefur verið notað til fjárreksturs úr Rana á haustinn og sveitarstjóri greindi frá því að rætt hafi verið við fjallskilastjóra vegna þessa og afar líklegt að það verði fundin lausn á þessu. Einnig var ljáð máls á mögulegum áhrifum ákvarðana um dýrahald á svæðinu á sauðfjárrækt í sveitinni.
Fundi slitið 19:55
Fundarstjóri Lárus Heiðarsson