Sorphirða

Sveitarfélögum er skylt að sækja fjóra flokka af sorpi heim að dyrum íbúðarhúsa og hafa tiltækan farveg fyrir úrgang s.s. með því að halda úti grenndar- og móttökustöðvum.

Fjórir flokkar á hverju heimili

Á hverju heimili er fjórum úrgangsflokkum safnað matarleifum, pappír og pappa, plasti og blönduðum úrgangi.

Ítarlegri flokkunarleiðbeiningar má nálgast á heimasíðu Íslenska Gámafélagsins


Stöðvar

  • Grenndastöðvar eru fyrir gler, málma og textíl, stöðvarnar eru staðsettar á eftirfarandi stöðum:

    • Djúpivogur – á planinu bak við Tryggvabúð, Markarland 2.
    • Egilsstaðir – að Tjarnarási 9 milli þjónustumiðstöðvar og móttökustöðvar, framan við hús Rauða krossins.
    • Seyðisfjörður - framan við móttökustöð við Fjarðargötu.

    Á öllum stöðum eru jafnframt gámar frá Rauða krossinum fyrir textíl.

  • Móttökustöðvar taka á móti öllum helstu úrgangsflokkum. Stöðvarnar eru staðsettar á eftirfarandi stöðum:

    • Borgarfjörður eystri, Áhaldahúsið á Heiðinni. Opið alla virka daga frá klukkan 8:00 - 16:00.
    • Djúpivogur, Háaurar. Opið þriðjudaga og fimmtudaga frá klukkan 13:30 - 16:30 og laugardaga frá klukkan 11:00 - 13:00
    • Egilsstaðir, Tjarnarás 9. Opið virka daga frá klukkan 9:00 - 17:00 og laugardaga frá klukkan 10:00 - 16:00.
    • Seyðisfjörður, Fjarðargötu. Opið virka daga frá klukkan 13:00 - 17:00 og laugardaga frá klukkan 13:00 -16:00.

Flokkun á heyrúlluplasti

Íslenska Gámafélagið er viðurkenndur þjónustuaðili Úrvinnslusjóðs fyrir söfnun á heyrúlluplasti til endurvinnslu

Árlega eru um 2000 tonn af heyrúlluplasti flutt til landsins. Til að koma í veg fyrir urðun á öllu þessu plasti og auka hlut endurvinnslu leggur Úrvinnslusjóður úrvinnslugjald á plastið, sem fæst endurgreitt þegar því er skilað til orku– eða endurvinnslu. Úrvinnslugjaldið gerir það að verkum að hægt er að senda plastið til endurvinnslu. Það plast sem Íslenska Gámafélagið safnar er sent til endurvinnslu. Mikilvægt er að plastið sé hreint og laust við hey, net, bönd og aðra aðskotahluti þegar því er safnað því óhreint plast hentar ekki til endurvinnslu og endar því með almennu sorpi í urðun.

Góður frágangur og hreinleiki eru forsendur þess að hægt sé að endurvinna plastið

Mikilvægt er að halda svörtu plasti aðskildu frá öðrum litum. Svarta filman hefur lægra endurvinnslugildi en aðrir litir og þarf því að fara sér til endurvinnslu. Þrátt fyrir að allir aðrir litir megi fara saman þá er það góð regla að flokka plastið eftir litum ef því verður við komið því það getur aukið endurvinnslumöguleika plastsins.

  • Góð ráð við frágang á plastinu

    • Hrista hey og annað lauslegt úr plastinu.
    • Taka frá net og baggabönd og setja með almennu sorpi.
    • Hafa plastið hreint til að hægt sé að endurvinna það. Ef plastið er blautt og skítugt er æskilegt að þurrka plastið í 1-2 daga og hrista það síðan til að losa öll aðskotaefni af plastinu.
    • Þjappa plastinu saman í viðráðanlegar einingar.
    • Geyma heyrúlluplastið á aðgengilegum stað fyrir starfsmann ÍGF þegar það er sótt. Mikilvægt að velja stað þar sem plastið helst hreint og þurrt.
  • Endurvinnsla á heyrúlluplasti

    Eftir að heyrúlluplastið hefur verið sótt til bænda, er það flutt í flokkunarstöðvar Íslenska Gámafélagsins þar sem það er pressað í bagga og flutt til endurvinnslu. Afurð endurvinnslunnar eru litlar plastkúlur sem nýttar eru sem hráefni til framleiðslu á nýjum plastafurðum.

    Endurvinnsla á plasti kemur í veg fyrir sóun á náttúruauðlindum eins og olíu, en í framleiðslu á einu tonni af plasti þarf u.þ.b. tvö tonn af olíu. Þá krefst endurvinnsla á plasti einnig minni orku en frumvinnsla þess. Með því að endurvinna heyrúlluplastið er enn fremur komið í veg fyrir að plastið sé urðað eða sleppi út í náttúruna. Niðurbrot plasts tekur hundruði ára og safnast á endanum upp í umhverfinu sem örplast og því er það allra hagur að gengið sé vel frá plastinu svo hægt sé að nýta það sem endurvinnsluhráefni.

  • Íslenska Gámafélagið getur einnig tekið við áburðarpokum í sömu ferð og heyrúlluplastið er sótt.

    Frágangur þarf að vera góður og t.d. má fylla einn áburðarsekk með hreinum áburðarsekkjum og loka fyrir.

    Frekari upplýsingar veitir starfsfólk umhverfissviðs Íslenska Gámafélagsins á umhverfissvid@igf.is eða í síma 577-5757.


Moltugerð

Lífrænn úrgangur

Með því að flokka heimilissorp minnkar rúmmál þess sorps sem þarf að urða. Um það bil 30-35% af heildarmagni sorps er lífrænn úrgangur sem má jarðgera. Afurð þess, moltan, nýtist sem næringarríkur áburður fyrir garðinn. Til að jarðgera lífrænan úrgang með góðum árangri þarf að þekkja ákveðin grunnatriði sem koma fram hér.

  • Jarðgerðarílátið er einkar heppilegt til heimajarðgerðar vegna góðrar hönnunar. Ílátið er framleitt úr endurvinnanlegu plasti og auðvelt í samsetningu. Það er með loki sem ver innihaldið gegn meindýrum og veðri. Að framanverðu er lok þar sem auðveldlega má taka moltuna út. Sérstök botnplata ver ílátið gegn ágangi meindýra eins og músa, en hleypir þó inn ánamöðkum sem hjálpa til við niðurbrot. Í miðju ílátsins er loftunarrör sem kemur í veg fyrir að moltan súrni og ólykt myndist. Með ílátinu fylgir loftunarstafur sem nota á þegar blanda skal moltunni til að auka súrefnisinnihald og hjálpa til við niðurbrot.

    Staðsetning jarðgerðarílátsins:

    Staðsetja ætti ílátið á skjólgóðum stað þar sem þó loftar um það. Ekki er gott að staðsetja ílátið alveg upp við heimilið, þar sem möguleiki er á að lykt geti myndast í jarðgerðarferlinu.

  • Setja má allan lífrænan eldhúsúrgang í jarðgerðarílátið. Ásamt matarleifum má setja kaffikorg- og filter, eldhúspappír, eggjabakka og fleira sem brotnar niður í jarðgerðinni. Í lagi er að setja afskurð af kjöti og fiski í hóflegu magni sem til fellur við hefðbundið heimilishald, en sleppa skal beinum þar sem þau brotna ekki niður í jarðgerðinni.

  • Reyna ætti að nýta allt úr garðinum í jarðgerðina nema kantskurð og mold. Allt gras og lauf sem og kurlaðar greinar ætti að setja í jarðgerðarílátið. Sé moltan of blaut er ráðlegt að þurrka grasið dálítið fyrst, en þó ekki of mikið til að upp náist hiti í jarðgerðarílátinu. Oft fyllist ílátið alveg og grasið kemst ekki allt í það, en eftir u.þ.b. 2 daga hefur grasið minnkað rúmmál sitt mjög mikið og þá mætti setja restina í. Athugið að ólífrænt rusl úr garðinum t.d. steinar, sígarettustubbar og fleira á ekki heima í jarðgerðinni.

  • Hæfilegt magn stoðefna er um 1/3 af rúmmáli ílátsins. Þeim er ætlað að bæta samsetningu moltunnar, auka loftun og koma í veg fyrir að moltan verði of blaut. Auk þessa eru stoðefni mikilvægur köfnunarefnisgjafi.

    Helstu stoðefni eru:

    ✔ Greinakurl

    ✔ Spænir

    ✔ Hálmur Jarðgerðarferlið

    ✔ Dagblöð (niðurrifin í strimla)

    ✔ Þurrt gras

    ✔ Eggjabakkar

Jarðgerðarferlið

  • Gott er að byrja á að setja u.þ.b. 10-20cm lag af grófum stoðefnum í botninn á ílátinu, t.d. kurlaðar eða klipptar trjágreinar. Þar yfir er settur garða- og eldhúsúrgangur og stoðefni og hrært reglulega. Hlutföllin ráðast af rakanum í moltunni, en mikilvægt er að halda jöfnum raka.

  • Hæfilegt magn þurra stoðefna á móti blautum eldhús- og garðaúrgangi stuðlar að góðri loftun. Einnig er mikilvægt að lofta vel með því að hræra í ílátinu með loftunarstafnum þegar nýju hráefni er bætt við. Loftunin viðheldur hitastigi moltunnar og hraðar jarðgerðarferlinu. Hún tryggir að nægt súrefni komist að í jarðgerðarferlinu. Með nægu súrefni má koma í veg fyrir óþarfa myndun á koltvísýringi og metani og þannig tryggja heilbrigða, næringarríka og lyktarlausa moltu.

  • Í jarðgerðarferlinu getur hitastig moltunnar verið um 40-60’C. Eðlilegt er að hitastigið sé lægra að vetri en að sumri til. Hitinn er hæstur þegar niðurbrotið er sem mest, en lækkar þegar jarðgerðarferlinu lýkur. Sé ekki hiti í moltunni getur ástæðan verið að hún sé og blaut eða of þurr.

    • Moltan er of blaut. Bæta þarf stoðefnum í moltuna og hræra vel. Einnig má taka allt úr ílátinu og blanda innihaldinu vel saman og setja það svo aftur í ílátið.
    • Moltan er of þurr. Draga þarf úr magni stoðefna. Gott er að setja ferskt gras, en það kemur hitanum yfirleitt alltaf í gang.
  • Þegar ílátið er opnað kemur oft flugnasveimur upp úr því og er það fullkomlega eðlilegt og í raun nauðsynlegt. Allt dýralífið sem sjá má í moltunni stuðlar að niðurbroti á lífrænum úrgangi. Örverur umbreyta því grófasta í fínna efni og svo eru það sýnilegu skordýrin sem lifa á örverunum og því sem ekki hefur brotnað niður. Við viljum því hafa skordýr í moltunni, því fleiri því betri molta! Ánamaðkar eru sérstaklega velkomnir í moltunni og gera hana enn betri en ella

  • Undir venjulegum kringumstæðum lyktar jarðgerð lítið. Viðvarandi (súr) ólykt upp úr jarðgerðaríláti er oftast vegna þess að moltan í ílátinu er of blaut og súrefni kemst ekki að. Ferskur lífrænn úrgangur inniheldur mikið af vatni og blautar matarleifar klessast gjarnan saman sem getur leitt til súrefnisskorts í rotmassanum. Við súrefnissnauðar aðstæður er annars konar bakteríuflóra að verki, en þá myndast gjarnan metangas og illa lyktandi efni. Við slíkar aðstæður er erfitt fyrir loftháðar örverur að vinna sitt verk. Niðurbrotsferlið hægir á sér, hitastigið í ílátinu lækkar og upp getur komið súr lykt. Til að losna við ólyktina þarf að koma loftháðri öndun aftur af stað með því að bæta við stoðefnum og róta hressilega í massanum til að færa örverunum súrefni.

  • Sá tími sem tekur að fullgera nothæfa moltu er á bilinu 8-12 mánuðir. Tíminn getur þó verið breytilegur eftir aðstæðum. T.d. gengur ferlið hægar fyrir sig að vetri til en að sumri. Þroskaðri moltu er mokað út um lokið neðst að framanverðu ílátsins. Ef hún virðist ekki tilbúin (er of blaut, kekkjótt eða lyktar illa) er gott að láta hana standa og þroskast áfram. Einnig er hægt að setja hana aftur í ílátið að ofan og blanda með stoðefnum. Tilbúin molta er laus í sér, álíka rök og undinn svampur eða líkt og gróðurmold sem hægt er að kaupa tilbúna í pokum.

  • Moltan er næringarríkur áburður sem hentar vel fyrir allan gróður. Hægt að blanda moltunni saman við mold eða nýta hana sem yfirlag á trjábeð. Niðurbrot lífrænna efna heldur áfram eftir að búið er að dreifa moltunni og er það talið vera einn af meginkostum jarðgerðar. Næringarefnin losna hægt úr læðingi og þannig endist næringargeta moltu mun lengur en tilbúins áburðar. Ekki er ráðlagt að nota moltuna í stað moldar við plöntun, heldur einungis sem viðbót til að auka næringarinnihald moldarinnar.

Svör við spurningum sem komið hafa fram varðandi innleiðingu á samræmdu flokkunarkerfi á landsvísu og útfærslu Múlaþings og Fljótsdalshrepp á því.

Hvert fer sorpið?

Blandaður úrgangur í Múlaþingi er urðaður eins og staðan er í dag, það er því öllum í hag að flokka sem mest og lágmarka þannig blandaðan úrgang. Endurvinnsluefnið fer mestmegnis erlendis, þar sem fyrirtæki flokka það enn frekar og senda allt sem er mögulegt að endurvinna í endurvinnslu, afgangurinn fer til brennslu til orkuframleiðslu.

Verða breytingar á sorphirðugjöldum?

Já, það koma til með að verða breytingar á sorphirðugjöldum. Ný lög kveða á um að sveitarfélögum er ekki lengur heimilt að borga með sorphirðu fyrir íbúa, en það hefur Fljótsdalshreppur gert hingað til. Gjöldin koma ekki til með að breytast fyrr en á nýju ári.

Verður breyting á sorphirðutíðni?

Til að byrja með verður núverandi sorphirðudagatal áfram í gildi. Það koma hinsvegar til með að verða breytingar á tíðninni eftir því sem reynsla kemur á sorphirðuna. Mun Múlaþing einnig nýta sér reynslu annarra sveitarfélaga við gerð nýs sorphirðudagatals. Þar sem kostnaður fyrir sorphirðu þarf nú að veltast allur yfir á íbúa, verður tíðninni haldið í skefjum eins og hægt er án þess að það valdi íbúum óþægindum, til að halda niðri kostnaði.

Hvað með tunnuskýlið mitt?

Sama breyting er að eiga sér stað um allt land. Sveitarfélög munu ekki standa kostnað af því að breyta eða skipta út tunnuskýlum. Það þurfa íbúar að gera sjálfir sem ábyrgðaraðilar sinna fasteigna. Ýmsar lausnir eru í boði, svosem krókar sem má festa á skýli til að festa fjórðu tunnuna og fást víðsvegar.

Hvaða stærðir verða á tunnunum?

Tunnur fyrir blandaðan úrgang, plast og pappír og pappa munu vera 240 lítra, það er sama stærð og “gráa” og “græna” tunnan er í dag. Lífræna tunnan mun halda sinni stærð, 120 lítra.

Hvers vegna verður ekki í boði að fá tvískipta tunnu?

Ástæða þess að ákveðið hefur verið að bjóða ekki upp á tvískipta tunnu er í raun þríþætt.

  1. Þær eru mikið dýrari í rekstri, tæming á þeim tekur mikið lengri tíma. Hægt er að tæma þrjár venjulegar tunnur á sama tíma og ein tvískipt er tæmd. Það þýðir að gjöld fyrir slíkar tunnur verða mikið hærri, sem skilar sér í hærri sorphirðugjöldum.
  2. Það er erfitt að tæma þær, sérstaklega ef sorpið frýs í þeim. Hönnun tunnunnar er breytt með því að setja í hana skilrúm ásamt því að hólfin eru lítil og þröng. Það veldur því að oft næst ekki að tæma þessar tunnur fyllilega.
  3. Það er erfiðara að þrífa þessar tunnur en þessar venjulegu vegna skilrúmsins sem er sett í hana.
Get ég fengið ílát í tunnuna mína fyrir blandaða úrganginn fyrir lífrænan úrgang?

Vinnueftirlitið hefur mælst gegn þessari leið og Múlaþing mun ekki bjóða upp á þann valkost. Ástæða þess er að vinnuaðstæður sorphirðufólks sem þarf að meðhöndla slík ílát eru óviðunandi. Þessi ílát geta orðið ótrúlega þung, og tæmdar eru margar tunnur á dag sem kallar á gríðarlegan burð. Einnig þýða ílátin að starfsmenn þurfa að handleika úrganginn og eru þannig berskjölduð fyrir ýmsum bakteríum og öðrum örverum.

Ég hendi engum lífrænum úrgangi, þarf ég að vera með tunnuna?

Lögin eru skýr, sveitarfélaginu ber að sækja fjóra flokka upp að heimili og bjóða upp á þá þjónustu fyrir alla, þar á meðal er lífrænn úrgangur. Reynsla hefur einnig sýnt það, að þar sem ekki er boðið upp á tunnu fyrir lífrænan úrgang sýna sýni þá niðurstöðu að magn lífræns efnis er margfalt hærra en þar sem tunnan er í boði. Það á líka við þar sem íbúar eru með heima moltugerð eða annað sem er gert til að nýta hráefnið heima við.

Má ég fara með plastið mitt á móttökustöð og sleppa plasttunnunni?

Lögin eru skýr, sveitarfélaginu ber að sækja fjóra flokka upp að heimili og bjóða upp á þá þjónustu fyrir alla, þar á meðal er plast. Gæði plasts sem safnast á móttökustöðum er lægra, það þýðir að greiðslur úr úrvinnslusjóði eru mikið lægri á hvert kíló en þau sem eru sótt heim að húsi. Hærri greiðslur úr úrvinnslusjóði skila sér síðan í hærri niðurgreiðslu á sorphirðugjöldum.

Hvernig verður grenndarstöðvum háttað?

Grenndarstöðvar koma til með að vera þrjár í til að byrja með, ein á Egilsstöðum, ein á Seyðisfirði og ein á Djúpavogi. Gámar frá Rauða Krossi Íslands munu taka við textíl, líkt og hefur verið undanfarin ár og sinna því hlutverki grenndargáms fyrir textíl. Gámum fyrir annars vegar gler og hins vegar málma mun verða komið fyrir á sama svæði og textílgámarnir eru. Þörf á því að bæta við fleiri stöðvum verður metin eftir því sem reynsla hjá okkur og öðrum sveitarfélögum kemur í ljós.

Hvar get ég nálgast frekari leiðbeiningar um flokkun?

Leiðbeiningar er að finna hér á heimasíðu Fljótsdalshrepps og á heimasíðu Íslenska Gámafélagsins, einnig er hægt að hafa samband við Íslenska Gámafélagið í síma 577-5757.

Þarf ég að skipta út maíspokum fyrir pappírspoka í lífræna sorpinu?

Eins og staðan er í dag er ekki þörf á að hætta að nota maíspoka í lífræna sorpið. Jarðgerðarferlið er öðruvísi í Reykjavík en í Eyjafirði þangað sem lífræna sorpið okkar fer. Krefst ferlið sem er notast við fyrir Fljótsdalshrepp í dag ekki að skipt sé í pappírspoka

Verð ég að setja plastið og pappírinn í poka í tunnurnar?

Nei, það er betra að endurvinnsluefnið, plastið og pappírinn fari pokalaust í tunnurnar því það er betra fyrir flokkunarferlið sem efnið á eftir að fara í gegnum.

Má frauðplast fara í plast tunnuna?

Nei, frauðplast þarf að fara með á móttökustöð.

Þarf ég að þvo upp sorpið mitt?

Það þarf ekki að þrífa sorpið, það er nóg að skola vel og þerra nokkuð vel. Aðal málið er að umbúðirnar séu lausar við efna- og matarleifar. Gott er að hafa í huga að hreinna efni skilar sér í meiri gæðum sorpsins sem skilar sér í hærri greiðslum úr úrvinnslusjóði, sem skilar sér í sorphirðugjöldin. Einnig fer sorpið í enn frekari flokkun þar sem starfsfólk þarf að handleika það.

Hvenær á ég að byrja að aðskilja plastið og pappann

Byrjað verður að aðskilja plast og pappa þegar fjórða tunnan (plast tunnan) kemur á heimili, henni verður dreift samhliða tæmingu á núverandi endurvinnslutunnu. Báðar tunnur verða því tómar á sama tíma og allir byrja með hreint borð.

We use cookies on our website. Some of them are essential for the operation of the site, while others help us to improve this site and the user experience (tracking cookies). You can decide for yourself whether you want to allow cookies or not. Please note that if you reject them, you may not be able to use all the functionalities of the site.

Ok