Skattlagning á vindorkuver í Noregi rædd í stjórn Samtaka orkusveitarfélaga

 

Í byrjun október kynnti norska ríkisstjórnin frumvarp um grunnrentuskatt á vindorkuver en í frumvarpinu er einnig kveðið á um framleiðslugjald sem skiptist milli ríkis og sveitarfélaga. Í ljósi þess að hér á landi bíða sveitarfélög eftir tillögum starfshóps um skattlagningu á raforkuframleiðslu óskuðu Samtök orkusveitarfélaga eftir samantekt um meginatriði fyrirhugaðra lagabreytinga. Á fundi stjórnar SO 22. nóvember ræddi stjórnin minnisblað Guðjón Bragasonar lögfræðings um málið.

  • Vert er að halda þvi til haga að norsk orkufyrirtæki eru skattlögð á annan hátt en önnur norsk fyrirtæki og á töluvert annan hátt en íslensk orkufyrirtæki. Þau greiða 1) tekjuskatta, 2) fasteignaskatta, 3) auðlindarentuskatta, 4) raforkuskatta, 5) leyfisgjald, ennfremur 6) veita sveitarfélögum forkaupsrétt að orku á verði sem hefur á umliðnum árum verið umtalsvert undir markaðsverði. Í Noregi hafa ríki og sveitarfélög skipt sköttum af orkufyrirtækjum nokkuð jafnt á milli sín.
  • Grunnrentuskattur, sem er auðlindarentuskattur sem leggst ofan á tekjuskatt orkufyrirtækja, hefur verið lagður á vatnsaflsvirkjanir í Noregi frá árinu 1997 en vindorkuver hafa hins vegar verið undanþegin grunnrentuskatti þar til nú.

Meginatriði frumvarpsins

  1. Leiðarljós er m.a. að skattlagningin virki ekki letjandi á fjárfestingu í vindorkuverum og er því kveðið á um frádrátt vegna fjárfestinga. Grunnrentuskattur reiknast jafnframt af afkomu eftir tekjuskatt.
  2. Þar sem grunnrentuskattur er háður afkomu fyrirtækja geta tekjur orðið sveiflukenndar fyrir hið opinbera. En norska ríkið ábyrgist að skatttekjur renni að lágmarki að helmingi til sveitarfélaga.
  3. Einnig er kveðið á um sérreglur um afskriftir sem gilda um skattlagningu vindorkuvera sem eru þegar starfandi fyrir 1. janúar 2024.

    Skattprósentan miðast við 35% af reiknuðum hagnaði en upphafleg tillaga ríkisstjórnarinnar var 40%.

    Af málamiðlunum leiðir að tekjur hins opinbera af grunnrentuskatti verða í byrjun fremur takmarkaðar. En þær forsendur geta breyst ef raforkuverð hækkar áfram.

    Sérreglur eru í frumvarpinu sem taka tillit til þess að gildandi raforkusamningar eru með ólíkum skilmálum.

Einnig er kveðið á um hækkun skatts á raforkuframleiðslu:

  • Framleiðsluskattur hefur verið í gildi frá árinu 2022 en er nú hækkaður og verður 2.3 aurar/kWh. Áætlaðar tekjur hins opinbera af honum eru um 390 milljónir NOK á árinu 2024. Þessi skattur er ekki háður afkomu einstakra raforkuframleiðenda, öfugt við grunnrentuskattinn og er því öruggur tekjustofn fyrir sveitarfélögin þar sem framleiðslan fer fram.
  • 0,2 aurar af framleiðslugjaldi verða sérstaklega eyrnamerktir til nærsamfélaga. Þar er átt við að tekjur renni t.d. til náttúruverndar, hreindýraræktunar og annarra verkefna eða hagsmuna sem tengjast beint landnýtingu á viðkomandi svæði en á eftir að útfæra nánar, væntanlega í stjórnvaldsfyrirmælum.

Tekjuauki norskra sveitarfélaga

  • Í gegnum framleiðsluskattinn muni sveitarfélög fá tekjur sem jafngildir u.þ.b. helmingi af þeim tekjum sem renna til ríkisins af grunnrentuskatti. Þannig er áætlað að á árinu 2024 muni framleiðsluskatturinn gefa sveitarfélögum heildartekjur sem eru í kringum 390 milljónir NOK, eða nálægt 5 milljörðum ISK. Á þeim árum sem grunnrentuskattur skilar miklum tekjum munu sveitarfélögin einnig fá hærri tekjur með millifærslu frá ríkinu á næsta ári.

Munur á skattlagningu á orkuframleiðslu Íslandi og Noregi

Umræddar lagabreytingar í Noregi er ekki hægt að yfirfæra á einfaldan hátt yfir á íslenskar aðstæður því þær eru viðbót við það regluverk sem fyrir er í norskri löggjöf. Þar er t.d. fasteignaskattur útfærður með allt öðrum hætti en gert er hér á landi. Og þar er einnig í gildi náttúruauðlindaskattur á raforkuframleiðslu með vatnsafli sem rennur til sveitarfélaga og fylkja.

Þrátt fyrir þetta er mikilvægt að við umræðu um vindorkulöggjöf og skattlagningu á raforkuframleiðslu hafi íslenskir sveitarstjórnarmenn kynnt sér þessa þróun í norskri löggjöf.

Fyrir hönd stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga,

Ása Valdís Árnadóttir, formaður


Þessi póstur var sendur á aðildarsveitarfélög Samtaka orkusveitarfélaga til upplýsinga og kynningar fyrir sveitarstjórnir.