Upplýsingar frá kjörstjórn Fljótsdalshrepps

Kjósendur eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga skráð lögheimili þremur vikum fyrir kjördag.

 

Í Fljótsdalshreppi verða óbundnar kosningar. Við óbundna kosningu eru allir kjósendur í sveitarfélaginu í kjöri með þeirri undantekningu að þeir sem setið hafa í sveitarstjórn eitt kjörtímabil eða lengur geta skorast undan kjöri, enda tilkynni þeir yfirkjörstjórn það fyrir lok framboðsfrests.

Jóhann Þorvarður Ingimarsson fráfarandi sveitarstjórnarmaður hefur beðist undan endurkjöri næsta kjörtímabil.

Öllum öðrum sem eru kjörgengir, heilir og hraustir og yngri en 65 ára, er skylt að taka kjöri í sveitarstjórn við óbundna kosningu.

Kjörseðill við óbundna kosningu er mjög frábrugðinn kjörseðli við bundnar hlutfallskosningar.

Kjörseðillinn er tvískiptur. Efri hluti kjörseðils skal ætlaður fyrir nöfn og heimilisföng aðalmanna en neðri hluti hans fyrir nöfn og heimilisföng varamanna. Á neðri hluta kjörseðils skal vera töluröð miðuð við fjölda þeirra sem kjósa á.

Atkvæðagreiðsla fer fram með þeim hætti að kjósandi skrifar á kjörseðilinn fullt nafn og heimilisfang aðalmanna á þann hluta kjörseðilsins sem ætlaður er fyrir kjör aðalmanna.

Á þann hluta seðilsins sem ætlaður er fyrir kjör varamanna skal kjósandi rita nöfn varamanna og heimilisföng þeirra í þeirri röð sem hann kýs að þeir taki sæti allt að þeirri tölu sem kjósa á.

Ekkert er því til fyrirstöðu að kjósandi riti upplýsingar um nöfn og heimilisföng þeirra aðal- og varamanna sem hann hyggst greiða atkvæði á blað sér til minnis og hafi það sér til stuðnings í kjörklefa á meðan hann greiðir atkvæði.

Utankjörstaðaratkvæðagreiðsla fer fram hjá Sýslumönnum og í útibúum þeirra (sjá nánar á syslumenn.is).

We use cookies on our website. Some of them are essential for the operation of the site, while others help us to improve this site and the user experience (tracking cookies). You can decide for yourself whether you want to allow cookies or not. Please note that if you reject them, you may not be able to use all the functionalities of the site.

Ok