Ánægjulegar fréttir bárust í dag.

Úthlutun Framkvæmdasjóðs ferðamála fór fram í dag 9. mars 2021. Fljótsdalshreppur fær samtals 64.571.000 kr til Hengifosssvæðisins og Sturluflöt fær 1.566.000 kr til merkingar gönguleiða við Strútsfoss. Þessu fögnum við og þökkum fyrir.

Fljótsdalshreppur - Hengifoss - göngubrýr og norðurstígur. Kr. 7.700.000,- styrkur til að smíða og koma fyrir tveimur göngubrúm yfir Hengifossá til að opna gönguleið á norðurbakka árinnar. Staðsetning göngubrúnna er sett fram í deiliskipulagi svæðisins, annars vegar við efsta útsýnisstað áður en gengið er inn í gljúfrið, hins vegar niðri við bílastæði milli gljúfurkjafts og bílabrúar. Gönguleið norðanmegin ár verður stikuð samhliða brúargerð. Verkefnið lýtur að nokkrum mikilvægum áherslum sjóðsins. Það bætir grunnþjónustu og öryggi, stuðlar að náttúruvernd og er á áfangastaðaáætlun svæðisins.

Fljótsdalshreppur - Hengifoss - bætt aðstaða og verndun náttúru. Kr. 1.871.000,- styrkur til að viðhalda göngustígum, bæta merkingar og afmarka betur áningarstaði og útsýnisstaði til að draga úr gróðurskemmdum og minnka fallhættu göngufólks ásamt því að koma upp aðstöðu fyrir flokkun sorps við bílastæði og bæta nestisaðstöðu. Verkefnið lýtur að nokkrum mikilvægum áherslum sjóðsins. Það bætir grunnþjónustu og öryggi, stuðlar að náttúruvernd og er á áfangastaðaáætlun svæðisins.

Fljótsdalshreppur - Hengifoss - Bygging þjónustuhúss. Kr. 55.000.000,- styrkur í byggingu þjónustuhúss fyrir ferðamenn með salernisaðstöðu og rými fyrir landvörslu og upplýsingagjöf. Byggingin er hluti af heildstæðri innviðauppbyggingu á staðnum í samræmi við skipulagsáætlanir og DMP áætlun til að tryggja aðgengi og öryggi gesta sem fjölgar ár frá ári. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir Þjónustuhúsi við Hengifoss 55 milljóna króna styrk árið 2021 og er það endanlegur styrkur sjóðsins til framkvæmda við þjónustuhús við Hengifoss. […] Ekki er um fulla umbeðna styrkupphæð að ræða.

Sveinn Ingimarsson - Strútsfoss - merkingar og áningarstaðir. Kr. 1.566.000,- styrkur til að bæta stíga, merkingar og áningarstaði á 4 km gönguleið frá Sturluflöt að Strútsfossi vegna vaxandi umferðar göngufólks að þessari náttúruperlu. Verkefnið er á áfangastaðaáætlun svæðisins og endurspeglar helstu áherslur sjóðsins hvað varðar náttúruvernd og aukið öryggi ferðamanna á veiku svæði.